hvernig þetta byrjaði

Um verkefnið

 
 

Ofbeldishringurinn er forvarnarverkefni sem Berglind Baldursdóttir setti af stað í kjölfar heimildaritgerðar sem hún gerði í Háskóla Íslands vorið 2018 en ritgerðin fjallaði um áhrif heimilisofbeldis á heilsu kvenna. Í einni af heimildunum rakst hún á það sem fagfólk kallar „ofbeldishringurinn” en það eru 3 stig sem heimilisofbeldi fylgir.

Eftir að hafa gert þessa uppgötvun í ritgerðavinnunni ræddi Berglind við nokkra þolendur heimilisofbeldis (allt konur) og komst að því að þær höfðu aldrei heyrt um ofbeldishringinn. Þær voru allar sammála um að ef þær hefðu vitað að þetta væri þekkt ferli og að þær væru fastar í hringrás, hefðu þær farið fyrr frá makanum. Í staðinn upplifðu þær stöðugt, markvisst niðurbrot sem gerði það að verkum að þær misstu alla trú á eigin getu og að þær gætu lifað sjálfstæðu lífi án makans.   

Rannsóknir sýna að langtímaáhrif heimilisofbeldis á heilsu kvenna eru alvarleg. Hér eru eingöngu nefndar konur, þar sem þessi ritgerð var unnin með konur í huga en það má gera ráð fyrir að áhrifin á karlmenn séu þau sömu eða mjög svipuð.

Ein af heimildunum sem var notuð í ritgerðinni er mastersritgerð úr Háskóla Íslands frá 2014 þar sem viðmælendur voru konur sem höfðu nýlega dvalið í Kvennaathvarfinu. Af þeim var helmingur óvinnufær. 

Fljótlega eftir að Berglind fann heimildina um ofbeldishringinn kom upp sú hugmynd að gera heimasíðu til að vekja athygli á ofbeldishringnum. Heimasíðan var opnuð nokkrum mánuðum seinna. Næsta skref er svo að prenta plaköt með skýringarmynd og hengja þau upp á heilsugæslustöðvum, skólum og fleiri stöðum. 

Heimasíðan er unnin í samráði við Kvennaathvarfið. Fyrirtækin VÍS, EFLA, BYKO, og Isavia, auk Reykjavíkurborgar, fá bestu þakkir fyrir að styrkja verkefnið og hjálpa þannig til við að gera það að veruleika.

Markmiðið með verkefninu er að ofbeldishringurinn verði almenn þekking svo þolendur sjái strax hættumerkin og geti brugðist við áður en það er of seint, auk þess að vera hvatning til  aðstandenda um mikilvægi þess að grípa inn í, enda er heimilisofbeldi ekki einkamál.

Heimasíðan ofbeldishringurinn.is er núna hluti af fræðsluefni Neyðarlínunnar. 

 

 
 

Á Íslandi upplifa um 22% kvenna heimilisofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni. Þetta er sláandi tala í ljósi þess hve fá úrræði eru til hér á landi og að fræðslu og forvarnir skortir enn.