heimilisofbeldi er ekki einkamál

Hvað er ofbeldishringur?

 

Ofbeldishringurinn er hugtak sem var fyrst sett fram af Dr. Lenore Walker 1979 til að lýsa 3 stigum sem heimilisofbeldi fylgir. 

Fyrsta stigið er uppsöfnun spennu, á öðru stigi losnar um spennuna í formi líkamlegrar eða andlegrar árásar og svo tekur þriðja stigið við sem eru „hveitibrauðsdagarnir.” Á því stigi er gerandinn fullur eftirsjár, sýnir sínar bestu hliðar, gefur gjafir og svo framvegis, allt þar til spenna byrjar að safnast upp á ný og nýr hringur hefst. Margir eru sammála um að þetta þriðja stig sé það hættulegasta því það er talin ein helsta ástæða þess að þolandinn fer ekki frá makanum (gerandanum) heldur trúir því að þetta muni aldrei gerast aftur. Margir sérfræðingar telja þetta stig jafnframt vera hluta af stjórnuninni.

Spennustigið:

Viðbrögð þolanda: Reynir að róa geranda – Er rólegur eða málgefinn – Forðast ættingja og vini – Sussar á börnin – Gefur samþykki fljótt – Dregur sig inn í skel – Líður almennt eins og „gengið sé á eggjaskurn”

Gerandi: Geðvondur – Með aðfinnslur – Hættir að sýna hlýju/blíðu – Niðurbrot/Gerir lítið úr þolanda – Öskrar – Misnotar áfengi/vímuefni – Er með hótanir – Skemmir eignir – Önuglyndur – Gagnrýnir vini/fjölskyldu þolanda

Árásarstigið:

Viðbrögð þolanda: Reynir að verja sig – Hringir á lögreglu – Reynir að róa geranda – Reynir að hugsa rökrétt – Fer frá geranda – Slæst á móti

Gerandi: Beitir líkamlegu eða andlegu ofbeldi – Kýlir – Slær – Sparkar – Tekur hálstaki – Niðurlægir – Hrindir – Sviptir frelsi – Nauðgar - Beinbrýtur - Myrðir þolanda („óvart”)

Hveitibrauðsdagarnir:

Viðbrögð þolanda: Samþykkir að vera kyrr/koma aftur/taka geranda í sátt – Reynir að koma í veg fyrir ákæru – Pantar tíma í ráðgjöf fyrir geranda – Upplifir hamingju og von – Venjulegt ástand tekur við (sem verður þó smám saman litað af slæmri reynslu)

Gerandi: Grátbiður um fyrirgefningu – Lofar að fara í ráðgjöf – Fer í AA o.þ.h. – Sendir blóm – Grætur – Gefur gjafir – Býður í rómantískan kvöldverð/utanlandsferð/dekur – Eftirsjá (ekta eða leikin) – Venjulegt ástand tekur við

Nýr hringur hefst.

Eftir því sem parið gengur í gegnum fleiri ofbeldishringi, styttast „hveitibrauðsdagarnir” (góðu tímunum fækkar), ofbeldið eykst og verður alvarlegra.  

 

„Af hverju fer hún ekki frá honum?“ er spurning sem margir kannast við að hafa spurt sig þegar kemur að ofbeldissambandi þar sem kona er þolandinn. Eða „hvernig lætur hann/hún bjóða sér þetta?“