afleiðingar heimilisofbeldis

Langtímaáhrif heimilisofbeldis á börn

 
 

Lágt sjálfsmat

Áfallastreituröskun

Þunglyndi

Kvíði

Sjálfsvígshugsanir

Áfengis- og vímuefnanotkun

Ofbeldi gegn öðrum börnum

Hegðunarraskanir

Sálfélagsleg vandamál

Geðraskanir

Áhættuhegðun

Líkamlegir sjúkdómar

Ótímabær dauði

Barn fæðist fyrir tímann

ATH: Þessi áhrif geta komið fram þó barnið verði eingöngu vitni að ofbeldinu.

Frétt: Börn á vettvangi í sextíu prósent útkalla í heimilisofbeldismálum

Afleiðingar áfalla í æsku

Samkvæmt rannsóknum eru greinileg tengsl milli áfalla í æsku og líkamlegrar og andlegrar heilsu á fullorðinsárum.

Ítarlegar upplýsingar um orsakir og afleiðingar áfalla í æsku er m.a. hægt að lesa í greininni „Falin áföll ómálga barna,” eftir Sæunni Kjartansdóttur hjá Miðstöð foreldra og barna (heitir nú Geðheilsuteymi fjölskylduvernd hjá Heilsugæslunni). Í greininni er vísað í stóra rannsókn, þar sem ofbeldi, þar með talið heimilisofbeldi, er meðal þess sem var rannsakað. Aðrar skilgreindar gerðir áfalla voru vanræksla, áfengis- og/eða fíknivandi foreldris, geðrænir sjúkdómar foreldris, og foreldramissir. (Hver gerð áfalls er 1 stig á ACE kvarðanum.) Ef barn upplifir fjórar gerðir áfalla eða fleiri, aukast líkurnar á að það glími við áhættuhegðun, geðræn vandamál, aukna lyfjanotkun, hjarta- og æðasjúkdóma, krabbamein, langvinna lungnasjúkdóma eða deyi fyrir aldur fram. Ef stigin eru 6 eða fleiri styttir það ævina um 20 ár.

Þetta eru sláandi niðurstöður, sérstaklega í ljósi þess hve lítið hefur verið rætt um heimilisofbeldi og afleiðingar þess á börn. Umræðan er þó loksins að aukast.

Áhrif foreldra á börn

Foreldrar hafa einnig hugræn áhrif á ungbörn og hvernig ómeðvitaðar hugmyndir barns mótast fyrsta árið. Það á meðal annars við um hvort það telji sig þess verðugt að fá hlýju og athygli frá öðrum. Í greininni er einnig fjallað um tengslaáföll sem börn á fyrsta ári verða fyrir. Einkenni þeirra eru oft mjög falin og koma jafnvel ekki fram fyrr en mörgum árum seinna, þegar barn er greint með röskun eða sjúkdóm.

„Af foreldrinu lærir barn með tíma og reynslu að greina á milli ólíkra tilfinninga og tempra líðan sína. … Endurtekin tilfinningatemprun foreldris hefur bæði lífeðlisfræðileg áhrif á barnið og hugræn. Þetta á ekki síst við á fyrsta ári þegar heilinn er í örustum vexti. Sá vöxtur er reynsluháður þar sem endurtekin reynsla býr til mynstur taugatenginga. Lífeðlisfræðilegu áhrifin felast einnig í því að viðmót foreldra hefur áhrif á hormónaframleiðslu barnsins. Við næma svörun dregur úr framleiðslu streituhormóna en framleiðsla vellíðunarhormóna eykst. Vanræksla hefur þveröfug áhrif.”

Mikilvægi tilfinningatemprunar

„Ónóg tilfinningatemprun hefur áhrif á þroska tauga- og hormónakerfisins sem stýrir allri starfsemi líkamans. Langvarandi streita getur skaðað ónæmiskerfið til skemmri og lengri tíma. Þá leiðir tilfinningalegt ólæsi iðulega til óviðeigandi bjargráða á unglingsaldri, s.s. sveltis, ótímabærs kynlífs eða neyslu hugbreytandi efna.”

Streita foreldra

Eitt af því sem fjallað er um í greininni eru áhrif streitu á foreldra, óháð því hvort um ofbeldi sé að ræða eða ekki. Streitan getur verið til komin af ýmsum ástæðum; fjárhagslegum, sambúðarvanda foreldra, eða óraunhæfar væntingar til foreldrahlutverksins. Mæður með áfallastreitu vegna ofbeldis eru í sérstökum áhættuhópi.

Nánar er fjallað um tengslaáföll og streitu foreldra í grein Sæunnar.

Andlegt ofbeldi er oft talið skaðlegra en líkamlegt ofbeldi.
 

Kjörþögli

Þegar barn sem kann að tala hættir að tala við ákveðnar aðstæður eða jafnvel alveg. Það talar kannski bara heima hjá sér, með fjölskyldu sinni, en ekki í leikskólanum eða skólanum.

Kjörþögli telst vera kvíðaröskun. Um 90% þeirra sem greinast með kjörþögli greinast líka með félagsfælni.

Fjölmargar ástæður geta legið að baki kjörþögli og ofbeldi eða óæskilegar heimilisaðstæður eru meðal þess sem getur orsakað það. Barn getur til dæmis fundið á sér að aðstæður heima fyrir (t.d. áfengisneysla, ofbeldi, misnotkun, geðræn vandamál) eigi að vera „leyndarmál” og gætir þess því að tala ekki af sér utan veggja heimilisins. Kjörþögli þarf ekki að þýða að barn búi við ofbeldi, heldur þarf fagaðili að meta hvert tilfelli fyrir sig.

Orsökin er ekki talin vera önnur röskun, þó aðrar raskanir geti fylgt. Kjörþögli er algengt í kjölfar áfalls sem barn upplifir, og getur einnig komið fram tímabundið þegar barn þarf að læra nýtt tungumál.

Hugrof

Varnarviðbrögð líkamans við ógn eða áfalli. Fólk sem hefur til dæmis upplifað kynferðisofbeldi hefur lýst því að líkaminn „frjósi” og það sé eins og þau hafi farið úr líkamanum eða aftengst tilfinningalega. Þetta kallast hugrof og er leið þolenda til að verja sig gegn ofbeldinu.